Heimspeki

Heimspeki hefur stundum fengið það orð á sig að vera með öllu gagnslaust fag.  Þeir sem halda fram gagnsleysi heimspekinnar styðjast oftar en ekki við þau rök að um beina arðbæra atvinnu sé sjaldgæft að finna í heimspeki.  Það birtast væntanlega aldrei atvinnuauglýsingar í fjölmiðlum þar sem óskað er eftir heimspekingi til starfa (helst sem fyrst, góð laun í boði!).  Aldrei hef ég þó heyrt nokkurn heimspeking halda fram gagnsleysi heimspekinnar.  Mælikvarðar manna á gagn og gagnsleysi eru æði misjafnir.  Hvað er hagnýtast eða gagnlegast í þessu lífi?  Að skrifa skáldsögur eða heimspekiritgerðir, aka langferðabifreið, stýra flugvél, byggja hús, hjálpa fátækum eða vinna í banka?  Hvernig er gagnsemin metin?  Getur einn talið sig gera meira gagn en annar sökum þess hvernig vinnu hann stundar?  Vissulega gerir bílstjórinn meira gagn en heimspekingurinn ef  sá sem í hlut á þarf að komast frá einum stað til annars.  Sama má segja ef skortur er á húsnæði, þá hefur smiðurinn margt að bjóða fram yfir heimspekinginn.  En hefur heimspekingurinn þá eitthvað að bjóða umfram aðra?  Gríski heimspekingurinn Aristóteles hélt því fram að þekkingarþrá væri öllum mönnum í blóð borin.  Allir vilja vita eitthvað meira en þeir vita og það er okkur eðlilegt að velta vöngum yfir ýmsu sem snertir líf okkar.  Það má því fullyrða með réttu þó í mismiklum mæli sé að allir menn eigi við heimspekileg vandamál að stríða.

Allir menn eiga við heimspekileg vandamál að stríða

Það sem átt er við með að segja alla menn eiga við heimspekileg vandamál að stríða felst í þeirri ráðgátu sem mannleg tilvist felur í sér.  Allir þurfa að taka ákvarðanir, misjafnlega flóknar, allir þurfa að lifa lífinu á einhvern hátt og marka sér ákveðinn lífsstíl.  Á alla menn leitar einhverntíma angist og erfiðar spurningar um samskipti og siðferði, rétt og rangt og gott og illt, um guð, fagurt og ljótt, um tilgang lífsins og tilgangsleysisvo eitthvað sé nefnt.  Frammi fyrir þessum ráðgátum og fjölmörgum öðrum kemur gagnsemi heimspekinnar best í ljós enda hefur hún lengi glímt við slíkar gátur.

 Hvað er eiginlega heimspeki?

Er hægt að segja að heimspeki sé það sem heimspekingargera?  Nei varla þar sem heimspekingar geta gert svo margt annað heldur en að leggja stund á heimspeki.  Það er t.d. ekki hægt að segja að húsamálun sé heimspeki þó mögulegt sé að tilteknir heimspekingar stundi slíka iðju í frístundum sínum.

Heimspekingar eru nokkuð sér á parti hve varðar afstöðuna til eigin fræða.  Ólíkt öðrum fræðimönnum spyrja þeir sig oft að því hvað heimspeki sé og hvað það þýði að stunda heimspeki.  Aðrir fræðimenn  eins og t.d. líffræðingar, félagsfræðingar og lögfræðingar leggja almennt ekki ekki eins mikið upp úr því að spyrja sig að því hvað líffræði, félagsfræði og lögfræði er.  Þeir einfaldlega stunda sín störf.

Þó heimspekingar séu í grundvallaratriðum sammála um ýmsa grundvallarþætti sem gera heimspeki að heimspeki eru skoðanir þeirra engu að síður nokkuð skiptar og áherslur þeirra innan heimspekinnar einnig.  Páll Árdal, íslenskur heimspekingur sem bjó og starfaði í Kanada hélt því t.d. fram að heimspekin ætti ekki að vera sérstakt fag heldur öllu heldur viðhorf eða gagnrýnið sjónarhorn til veruleikans eða eins og hann orðaði það sjálfur:  “Í vissum skilningi ætti heimspeki ekki að vera sérstakt fag, heldur miklu fremur viðhorf, eða gagnrýnið sjónarhorn til veruleikans, þar sem menn reyna að mynda sér skynsamlega skoðun á stöðu sinni í veruleikanum.”[1]

Heimspeki er viskuást

Ein leið til þess að útskýra heimspeki er að segja heimspeki vera viskuást.  Gríska orðið fílósófía sem þýtt hefur verið sem heimspeki á íslensku vísar til þess sem leitar að visku og kann hana að meta.  Heimspekingurinn er því viskuvinur.

Heimspeki felur í sér ákveðna ástundum þar sem leitað er frekari skilnings og þekkingar, hún felur í sér gagnrýnið viðhorf og er ákveðin lífsskoðun.

Upphaf heimspekinnar

Almennt er talið að upphaf vestrænnar heimspeki megi rekja til grikkjans Þalesar frá Miletos sem var uppi u.þ.b. 580 árum fyrir okkar tímatal.  Hann velti því aðallega fyrir sér úr hverju heimurinn væri gerður.  Þekktustu persónurnar úr sögu heimspekinnar eru þó án efa þeir Sókrates, Platon og Aristóteles.

Viðfangsefni heimspekinnar

Ef skoðaðar eru kennsluskrár heimspekideilda háskóla má sjá að heimspeki er skipt niður í ýmsar greinar og svið.  Þeirra á meðal eru fagurfræði sem fjallar um eðli lista og fegurðar, þekkingarfræði sem fjallar um eðli þekkingar, siðfræði fjallar um rétt og rangt, gott og illt og hvernig lífi sé best að lifa.  Rökfræðin fjallar meðal annars um rökfærslur í máli.  Frumspeki fjallar um eðli og gerð veruleikans, frumspekingurinn spyr um skilgreiningar á hinum ýmsu þáttum veruleikans og spyr t.d. hvað sé raunverulegt og hvað ekki.  Einnig er algengt að sjá orð t.d. í kennsluskrám skóla, eins og vísindaheimspeki, stjórnmálaheimspeki, trúarheimspeki, heimspeki menntunar, heimspeki félagsvísinda osfrv.  Þar er fjallað um þær heimspekilegu spurningar sem fylgja öðrum greinum.

Heimspekilegar spurningar

Einn meginþátturinn í heimspekilegum rannsóknum, sem miðar að því að komast að því sem satt er og rétt, felst í því að spyrja. Við tölum um heimspekilegar spurningar og óheimspekilegar. Eftirfarandii spurningar eru dæmi um óheimspekilegar spurningar:

  • Hvað er klukkan?
  • Hvað er langt til Keflavíkur í kílómetrum talið?
  • Hvar er mamma þín?
  • Klukkan hvað byrjar þú að vinna á morgnana?
  • Hvenær ertu komin heim í dag?

Með þessum spurningum má fá skýr og einföld svör sem teljast fullnægjandi þeim sem spyr. Ef ég byrja að vinna á morgnana kl. 08.00 þá er það svarið við spurningunni hvenær ég byrja að vinna á morgnana. Í sjálfu sér er ekki þörf á að segja meira um það svar.

Heimspekilegar spurningar hinsvegar eru flóknari í þeim skilningi að þar er svarið oftast ekki jafn augljóst og þegar um óheimspekilegar spurningar er að ræða. Spurningarnar krefjast þess oft að við stöldrum við einstök hugtök og greinum þau betur áður en svarað er. Heimspekilegar spurningar verða oft til þess að aðrar spurningar vakna. Þannig felst heimspekilega rannsókn m.a. í því að spyrja og leyfa einni spurningu að leiða af annarri þar til komist er að ásættanlegri niðurstöðu.

Dæmi um heimspekilegar spurningar sem m.a. hafa birst á vísindavef Háskóla Íslands[2]

1   Er siðferðilega rétt að segja börnum sínum að jólasveinar séu til?

2   Hvað felst í trúfrelsi?

3   Er trúaður maður sem brýtur af sér hræsnari?

4   Sér fólk sem hefur alls engin augu svart eða sér það alls ekkert?

5   Er hægt að tala um frjálsan vilja?

6   Hvað er fegurð og hvað er ljótleiki?  Í hverju felst fegurðin?

7   Fengju apar mannréttindi ef hægt væri að kenna þeim að tala?

8   Af hverju er smekkur manna mismunandi?

9   Af hverju þurfa menn að heita eitthvað? Af hverju ekki bara þú, hún eða hann?

10 Hversvegna er fólk á móti fóstureyðingum?

11 Er vit í tilfinningum?

12 Hvernig væri heimurinn ef allir væru heyrnarlausir?

13 Af hverju eru dýr lægra sett en menn?

14 Hvernig er hægt að höfða meiðyrðamál þar sem málfrelsi ríkir? Má ég ekki segja hvað sem er með vísun í málfrelsið?

15 Hver er siðferðilegur grundvöllur fyrir aftöku sakamanna?

16 Er eitthvað mark takandi á draumum?

17 Hvað er sannleikur?

18 Er vændi siðferðilega rangt eða ekki?

19 Margir vilja ekki veiða dýr en finnst eðlilegt að kaupa kjöt í verslun. Hvernig er hægt að útskýra þetta?

20 Hver er ég?

21 Ef ég skipti tvisvar um skaft og einu sinni um haus á hamri, verður útkoman þá sami hamar og ég byrjaði með?

22 Er afsökun möguleg?

23 Hvað er ”að vera“?

24 Af hverju loka menn saklaus dýr inni í búrum?

25 Hvað þarf maður að gera til þess að lifa góðu lífi?

26 Hvernig er best að skilgreina hið vonda?

27 Er sálin til?

28 Ef tré fellur í skóginum og það er enginn nálægt, heyrist þá eitthvert hljóð?


[1] Jörundur Guðmundsson, “Heimspekingurinn Páll S. Árdal”, viðtal í Lesbók Morgunblaðsins 24. maí 2003.

Færðu inn athugasemd