heimspekismiðja

Archive for maí, 2015|Monthly archive page

Eru allir jafnir? Bók um kynjamál og heimspeki fær útgáfustyrk.

In Uncategorized on maí 16, 2015 at 2:10 e.h.

Mannréttindaráð Reykjavíkur veitti í dag 16. maí styrk til að gefa út bók sem unnið hefur verið að undanfarna mánuði um kynjamál og heimspeki. Bókin ber heitið Eru allir jafnir? og er í sama bókaflokki og bókin Eru allir öðruvísi? fjölmenning og heimspeki, sem út kom árið 2012.

Samantekt og höfundur texta er Jóhann Björnsson en myndskreyting er í höndum Björns Jóhannsonar.

SCN_0013SCN_0017SCN_0006

Vefprestur braut siðareglur með skrifum á vefnum

In Uncategorized on maí 14, 2015 at 6:08 e.h.

 

Þá er það komið á hreint. Vefpresturinn Árni Svanur Daníelsson braut siðareglur vígðra þjóna þjóðkirkjunnar með skrifum sínum á Facebook 3. október s.l. Texti hans fjallar um undirritaðan Jóhann Björnsson kennara við Réttarholtsskóla, stjórnarmann í Siðmennt og kennara á námskeiðum fyrir borgaralega fermingu. Textinn er svohljóðandi:

 

Í Morgunblaðinu í gær er sagt frá námskeiði á vegum Siðmenntar sem fjallar um líf án trúarbragða. Kennarinn er leiðbeinandi í borgaralegri fermingarfræðslu. Hann kennir líka heimspeki í Réttarholtsskóla. Með fréttinni er mynd af skólanum og mynd af kennaranum þar sem ungmenni eru í bakgrunni. Kannski er hún tekin í skólanum.

Er nokkur hætta á því að undir formmerkjum heimspekikennslu fari fram áróður á forsendum hagsmunaaðilans Siðmenntar, skráðs lífsskoðunarfélags? Ég spyr af því að ég hef heyrt af því frá krökkum í Réttó að Jóhann liggi ekki á skoðunum sínum.

Ég er auðvitað hlutdrægur því ég er í hinu liðinu 😉 en mér finnst þetta mikilvægt umræðuefni. Ég vil hvorki áróður frá kirkjupresti eða borgaralegum “presti” í kennslutíma í skólum barnanna minna.

Annars er ég alveg sammála því sem fram kemur fram í reglunum sem Sigurður vísaði til efst í þessum þræði: Í skólanum á að fara fram fræðsla, á forsendum skólans. Ef utanaðkomandi aðilar – eins og Gídeonfélagið eða Siðmennt – heimsækja skólann þá þarf það að vera í fræðslutilgangi og ekki til trúboðs eða innrætingar. Þetta er alveg óháð tilgangi félagsskaparins að öðru leyti.”

 

Rétt er að geta þess að Árni Svanur tók stuttu síðar út hluta þessarar færslu en engu að síður voru skrif hans komin fram og eru samt sem áður sýnileg á vefnum eins og fram kemur í úrskurði úrskurðanefndar þjóðkirkjunnar.

Rétt er að taka það fram að myndin sem rætt er um í áðurnefndum skrifum sem tekin er þar sem nemendur eru í bakgrunni, er ekki tekin í Réttarholtsskóla heldur á námskeiði Siðmenntar fyrir borgaralega fermingu í Kvennaskólanum í Reykjavík.

 

Óskaði ég eftir því að störf mín sem grunnskólakennara yrðu tekin til rannsóknar með tilliti til ummæla Árna Svans og var það gert. Niðurstaðan í könnun fræðsluyfirvalda í Reykjavík þar sem kannað var hvort heimspekikennsla í Réttarhotlsskóla væri ekki með eðlilegum hætti var birt 13. nóvember s.l. Þar segir m.a.:

 

Skólanum hafa aldrei borist neinar kvartanir eða vísbendingar af neinu tagi um að heimspekikennsla í skólanum samræmdist ekki aðalnámskrá, siðareglum kennara eða öðrum viðmiðum um skólastarf. Ég tel að skólinn eigi hrós skilið fyrir frumkvöðlastarf á þessu sviði og að Réttarholtsskóli geti verið og eigi að vera stoltur af þeirri heimspekikennslu sem hér fer fram.”

Undir þetta skrifar Hilmar Hilmarson skólastjóri sem fór með rannsókn málsins.

 

Óskaði ég einnig eftir því að yfirmaður Árna Svans Daníelssonar við Biskupsstofu Agnes M. Sigurðardóttir svaraði því hvort umrædd skrif Árna Svans væru opinber yfirlýsing Biskupsstofu í ljósi þess að hann væri titlaður vefprestur og skrifin áttu sér stað á vefnum, eða hvort þau væru alfarið hans persónulega skoðun og hvort Árni Svanur Daníelsson starfaði samkvæmt siðareglum og ef svo er hvort um brot á siðareglum hafi verið að ræða?

 

Þorvaldur Víðisson biskupsritari svaraði fyrir hönd biskups:

 

Skrif Árna Svans Daníelssonar á umræddri facebook síðu eru ekki opinber yfirlýsing Biskupsstofu heldur tjá hans persónulegu skoðun.

Þjóðkirkjan setti sér siðareglur fyrir starfsfólk og vígðra þjóna kirkjunnar sem samþykktar voru á kirkjuþingi árið 2009. Starf séra Árna Svans Daníelssonar heyrir undir þær siðareglur.

Til þess að komast að því hvort um brot á siðareglum starfsfólks og vígðra þjóna kirkjunnar hafi verið að ræða í umræddu tilfelli hefur biskup Íslands í hyggju að fela úrskurðarnefnd að tala málið til umfjöllunar……”

 

Úrskurðanefnd þjóðkirkjunnar tók málið síðan til skoðunar í þeim tilgangi að svara því hvort Árni Svanur hafi brotið þær siðareglur sem honum bæri að starfa eftir. Niðurstaða úrskurðanefndar var gefin út 23. mars 2015 og þar segir m.a.:

 

Samantekt

Það er niðurstaða úrskurðarnefndar þjóðkirkjunnar að síðari setning 2. málsgreiar ummæla gagnaðila sem birtust kl. 12.20 á umræðuþræði á fésbókarsíðu nafngreinds eintaklings hinn 3. október 2014 brjóti gegn 2. og 13. gr. siðareglna vígðra þjóna og annars starfsfólks þjóðkirkjunnar.

Í siðareglum vígðra þjóna og annars stafsfólks þjóðkirkjunnar eru ekki ákvæði um viðurlög vegna brota á þeim. Hvorki 12. gr. Þjóðkirkjulaga né starfsreglur nr. 730/1998 um úrskurðarnefnd og áfrýjunarnefnd þjóðkirkjunnar gera ráð fyrir viðurlögum vegna siðabrota. Úrskurðarnefndin vill taka fram að jafnvel þó slík viðurlög væru til staðar þá hefði hún ekki beitt þeim í þesu máli með hliðsjón af málavöxtum öllum, einkum því að gagnaðili breytti ummælum sínum, felldi úr gildi þá setningu sem nefndin telur brjóta gegn siðareglum og taldi hana ekki lengur sýnilega.

Úrskurðarorð:

Gagnaðili, Árni Svanur Daníelson telst með setningunni: “Ég spyr af því að ég hef heyrt af því frá krökkum í Réttó að Jóhann liggi ekki á skoðunum sínum” hafa viðhaft ummæli sem brjóta gegn 2. og 13. gr. siðareglna vígðra þjóna og annars starfsfólks þjóðkirkjunnar.”

 

Undir þennan úrskurð skrifuðu Dögg Pálsdóttir, Elsa S. Þorkelsdóttir og sr. Hreinn S. Hákonarson.

 

Siðareglurnar sem brotnar voru eru svohljóðandi:

 

Starfsfólk og vígðir þjónar kirkjunnar eru fulltrúar kirkju sinnar og gæta þess í starfi og einkalífi að hafa virðingu hennar í heiðri og leitast við að bera fagnaðarerindi Krists vitni í orði og verki með því að:

 

  1. Gæta vandvirkni, samviskusemi og heiðarleika í starfi og að orð og athæfi samrýmist starfi og umhverfi, stað og stund.

 

  1. Sýna ábyrg rafræn samskipti og netnotkun.”

 

Jóhann Björnsson

 

 

 

 

 

%d bloggurum líkar þetta: