heimspekismiðja

Archive for apríl, 2015|Monthly archive page

Hafðu hugrekki….

In Uncategorized on apríl 10, 2015 at 5:10 e.h.

JÓHANN BJÖRNSSON SKRIFAR (birtist í Fréttablaðinu 10. apríl 2015)

 

Nú á vordögum fermast rúmlega 300 ungmenni borgaralegri fermingu á vegum Siðmenntar. Aldrei hafa fleiri börn fermst borgaralega en í ár. Athafnir eru haldnar á Akureyri, í Reykjavík, Kópavogi og í fyrsta sinn í Reykjanesbæ.

Fermingarbörnin sækja námskeið þar sem megináhersla er lögð á að efla og þjálfa gagnrýna og sjálfstæða hugsun og auka færni í að takast á við siðferðileg álitaefni. Eitt fermingarbarnanna var í viðtali nýverið og sagði m.a. um fermingarnámskeiðið:

„Á námskeiðinu fjöllum við um ólíka siði, tölum um hvað það þýðir að vera með fordóma, ræðum gagnrýna hugsun og hvað það sé miklu betra að skoða hlutina frá ólíkum sjónarhornum. Maður á ekki bara að gleypa við öllu sem maður heyrir og les og samþykkja það án þess að hugsa frekar út í það.“

Og fermingarbarnið heldur áfram og kveðst: „…vera þeirrar skoðunar að fermingarfræðsla Siðmenntar sé mjög gagnleg fyrir alla, ekki bara unglinga heldur líka eldra fólk… Svo ræðum við hvað það sé gott fyrir mann að vera alltaf opinn fyrir nýjum hugmyndum og hugsa út fyrir rammann.“

Þessi hugsun sem ríkjandi er á fermingarnámskeiðunum og fermingarbarnið lýsti kom fram hjá þýska heimspekingnum Immanúel Kant í grein sem hann skrifaði 1784. Kant hvatti samborgara sína til þess að hugsa sjálfstætt og gagnrýnið. Hann benti jafnframt á að hvarvetna væri fólk hvatt til að hugsa hvorki né rökræða: „Fjármálaráðherrann segir: „Rökræðið ekki, heldur borgið.“ Presturinn segir: „Rökræðið ekki, heldur trúið.““

Í nútímasamfélagi er ekki síður mikilvægt að hugsa sjálfstætt og gagnrýnið en var á dögum Kants, enda dynja á okkur alls kyns skilaboð á degi hverjum sem ástæða er til að skoða gagnrýnið. Orð Kants: „Hafðu hugrekki til að nota þitt eigið hyggjuvit!“ lýsa einstaklega vel meginmarkmiði fermingarnámskeiða Siðmenntar. Ef unglingunum tekst að auka hugrekki sitt til þess að nota eigið hyggjuvit hefur mikið áunnist og þeir fengið dýrmætt veganesti út í lífið.

%d bloggurum líkar þetta: