heimspekismiðja

Archive for ágúst, 2014|Monthly archive page

Margir leggja stund á heimspeki í vetur

In Uncategorized on ágúst 31, 2014 at 4:42 e.h.

SCN_0013Nú er skólastarf í grunnskólum landsins hafið. Eins og mörg undanfarin ár stendur nemendum við Réttarholtsskóla til boða að leggja stund á heimspeki. Er um skyldufag að ræða í 8. bekk en val í 9. og 10. bekk. Að þessu sinni vekur athygli hversu margir nemendur í 9. bekk kjósa að stunda heimspeki eða alls 57 í þremur hópum. Í árganginum eru 126 nemendur og því rétt rúm 45% nemenda í 9. bekk sem stunda heimspeki í vetur.

Mér lék forvitni á að vita hver ástæðan væri fyrir því að nemendur völdu heimspeki og hér eru svör nokkurra nemenda:

„Ég valdi heimspeki vegna þess að þetta er áhugavert fag. Fyrir mér fjallar heimspeki mjög mikið um það að líta á hluti frá öðru sjónarhorni.“

„Mér finnst svo gaman að hlusta á aðra tala.“

„Heimspeki er skemmtileg og fær mann til að hugsa.“

„Ég valdi heimspeki af því að þar hlustar fólk á það sem ég hef að segja og mér líður vel.“

„Mér finnst heimspekin áhugaverð og það er gaman að velta fyrir sér skrítnum spurningum og rökræða.“

„Því heimspeki er skemmtileg og það er gott fyrir mann að spyrja og reyna að svara heimspekispurningum.“

„Því ég er dálítill spekingur í mér og spyr skrítinna spurninga og pæli mjög mikið í hlutunum. Heimspeki er líka skemmtileg, spennandi og fræðandi. Þú færð líka að spyrja skrítinna spurninga sem þú myndir aldrei spyrja vini þína né fjölskyldu að því hún væri of flókin og skrítin fyrir þau að skilja.“

jb

Heimspekingar áberandi á heimsþingi húmanista

In Uncategorized on ágúst 20, 2014 at 12:55 e.h.

oxford mynd Heimsþing húmanista, World Humanist Congress var haldið í Oxford í Englandi dagana 7.-11. ágúst s.l. Það eru heimssamtökin International Humanist and Ethical Union (IHEU http://iheu.org/) sem halda heimsþing á þriggja ára fresti. Aðildarfélög IHEU eru fjölmörg og þeirra á meðal er Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi (http://sidmennt.is). Að þessu sinni var hugsana- og tjáningarfrelsið þema ráðstefnunnar (e. Freedom of thought and expression). Á ráðstefnunni kom fram að fjöldi fólks um allan heim býr ekki við tjáningarfrelsi og voru allmörg erindi flutt um málið af fólki sem hefur fundið illilega fyrir takmörkunum á tjáningarfrelsinu.

Fyrir áhugafólk um heimspeki er hér um afskaplega spennandi vettvang að ræða enda margir heimspekingar virkir í starfi IHEU. Heimspekingar voru áberandi á þinginu sem fyrirlesarar og þátttakendur í málstofum, enda tjáningarfrelsið kjörið viðfangsefni heimspekinnar.

Til þess að nefna einhver nöfn þá voru þarna þau A.C. Grayling http://www.acgrayling.com/ , Janet Radcliffe Richards http://www.neuroethics.ox.ac.uk/our_members/janet_r-r ,  Richard Norman sem skrifaði m.a. bókina Um húmanisma sem komið hefur út á Íslensku https://humanism.org.uk/about/our-people/distinguished-supporters/professor-richard-norman/ og Stephen Law sem skrifað hefur fjölda heimspekibóka fyrir börn og almenning http://stephenlaw.blogspot.com/ . Stephen Law er væntanlegur til íslands á næsta ári í boði Siðmenntar til þess að flytja erindi.

En hvar eru íslensku heimspekingarnir?

Stephen Law mynd

Tveir fulltrúar Siðmenntar á spjalli við Stephen Law

Námsefniskynning 19. ágúst

In Uncategorized on ágúst 12, 2014 at 10:13 e.h.

Þriðjudaginn 19. ágúst n.k. fer fram námsefniskynning í húsnæði Menntavísindasviðs H.Í. Stakkahlíð. Tvær heimspekibækur verða kynntar ásamt ýmsu öðru. Vefbókin 68 æfingar í heimspeki verður kynnt í stofu H202 kl. 11.00. Einnig verður bókin Samræðulist og spurningatækni eftir Jón Thoroddsen kynnt kl. 13.00 í stofu H203.

Á kynningunni verður einnig hægt að kaupa bækurnar Ef þú óskar þess að fá hest í afmælisgjöf og færð flóðhest, hefur þá óskin ræst? og fleiri heimspekilegar pælingar handa hverjum sem er og Eru allir öðruvísi, heimspeki og fjölmenning.

Untitledforsiðaforsíðumynd

%d bloggurum líkar þetta: