heimspekismiðja

Archive for september, 2013|Monthly archive page

Heimspekileg íslenskukennsla

In Uncategorized on september 25, 2013 at 11:06 f.h.

Ég kenndi einn 80 mínútna íslenskutíma í 8. bekk um daginn. Það lá fyrir að kenna sögu um mann sem var á þvælingi í kirkjugarði um nótt og rekst á hauskúpu. Sagan er í bók sem heitir Tungufoss 1 og heitir hún „Tian Buman“ eftir söguhetjunni og er um kínverska draugasögu að ræða.

Ég ákvað að nota þekkta aðferð úr heimspekikennslu í þessum tíma og hér að neðan má lesa um það hvernig unnið var í tímanum. Hvet ég íslenskukennara til þess að prófa þessa nálgun. Góða skemmtun.

  1. Við byrjuðum á því að lesa upphátt söguna Tian Buman.
  2. Tókum saman öll orð og setningar sem nemendur ekki skildu og skrifuðum á töflu.
  3. Tókum hvert orð / hverja setningu og greindum ítarlega merkingu og mögulega merkinu. Ég spurði oft „Hvað haldið þið að þetta orð þýði?“ „Gæti þetta þýtt eitthvað annað?“ Orðið „ybba“ var eitt af þeim orðum sem einhverjir skildu ekki. Við stöldruðum við þetta orð og einhverjir töldu það þýða „að rífa kjaft“, einhver taldi það þýða „að snappa fight“ eins og það var orðað. Við tókum stutta stund til að ákveða hvort væri betri útskýring á orðinu „ybba“ „að rífa kjaft“ eða „snappa fight“.
  4. Þegar búið var að skýra merkingu allra orða var sagan lesin aftur. (Til þess að allir væru nú með efnið á hreinu).
  5. Að lestri loknum fengu nemendur það verkefni að semja eina (hámark tvær) spurningar að eigin vali út frá sögunni. Spurningarnar máttu taka til upplifana, tilfinninga, staðreynda, hvað sem er sem þeim datt í hug og tengja má á einhvern hátt við söguna (tengingin mátti vera langsótt). Þau máttu vinna tvö og tvö saman ef þau vildu.
  6. Spurt að því hver /hverjir vildu  leyfa bekknum að heyra spurningu sem samin var. Þegar einn var búinn að  lesa upp spurninguna sína valdi hann þann næsta sem fékk að lesa og svo koll af kolli. (Svör við spurningunum átti ekki að fylgja með).
  7. Spurningarnar skrifaðar upp á töflu. Hér eru spurningar nemenda:

–          Hvernig getur hauskúpa verið lifandi og talað?

–          Hvað bað hauskúpan um?

–          Hvað hét manneskjan sem hauskúpan var af?

–          Hvaða skóstærð notaði Tian Buman?

–          Hvernig var veðrið?

–          Var hauskúpan skítug eða hrein?

–          Hvað hét hauskúpan?

–          Hver henti hauskúpunni og hversvegna?

–          Hvað var Tian Buman að gera úti um nóttina?

–          Af hverju strunsaði Tian Buman í burtu?

–          Hvað heitir kirkjugarðurinn?

–          Hvað var hauskúpan búin að vera lengi þar sem hún var?

–          Hvað gerði hann þegar hann sá hauskúpuna?

–          Hvort var hauskúpan karl eða kona?

–          Hvað var hauskúpan gömul?

–          Hvað hét fólkið í gröfunum?

–          Hvað var Tian Buman að gera í kirkjugarði um nótt?

–          Var Tian Buman samkynhneigður?

–          Fannst Tian Buman vöfflur góðar?

Þó spurt sé oft um staðreyndir þá finnast í flestum tilvikum ekki  svör við þessum spurningum sem nemendur sömdu í sögunni.

8) Síðan fengu allir þrjú atkvæði. Kosið var um það hvaða spurning skyldi tekin til rannsóknar. Allir máttu greiða þremur spurningum atkvæði sitt og sú spurning sem fengi  flest atkvæði yrði tekinn til nákvæmrar rannsóknar með það að markmiði að svara henni.

Sú spurning sem fékk flest atkvæði var þessi: „Fannst Tian Buman vöfflur góðar?“  (Þess má geta að það var ekkert í sögunni sem hafði með vöfflur að gera, hér var því bara um glæsilegt hugmyndaflug að ræða).

9) Nú svöruðu allir (hver fyrir sig) þessari spurningu „Fannst Tian Buman vöfflur góðar?“ á blað í stuttu og hnitmiðuðu máli og færðu rök fyrir svari sínu.

10) Þegar allir voru búnir að svara var spurt hvort það væri einhver sem vildi leyfa bekknum að heyra svarið sitt. Nokkrir réttu upp hönd og við fengum að heyra svör  og nemendurnir skiptust á skoðunum um þau svör sem komu fram.

11) Hér var komið að því að rökræða og rannsaka hvort Tian Buman fyndist vöfflur góðar en þegar hér var komið sögu höfðu við verið að í 80 mínútur og urðum að láta staðar numið. Margir vildu halda áfram og leggja orð í belg en við urðum að hætta áður okkur tókst að komast að því hvort Tian Buman fyndist vöfflur góðar eða ekki.

JB

%d bloggurum líkar þetta: