heimspekismiðja

Archive for febrúar, 2013|Monthly archive page

Hugmyndin úr Veröld Soffíu verður að veruleika

In Uncategorized on febrúar 7, 2013 at 3:03 e.h.

Nú veit ég ekki hvort þið lesendur góðir munið eftir bókinni Veröld Soffíu eftir Jostein Gaarder sem út kom á íslensku árið 1998. Í bókinni segir frá Soffíu Amundsen sem fær dulafull bréf í póstkassann frá ókunnum heimspekingi. Heimspekingurinn leggur fyrir hana ýmsar heimspekilegar spurningar og texta til aflestrar. Óvænt er hún komin af stað í einhverskonar bréfaskóla í heimspeki.

Bók þessi varð mjög vinsæl á sínum tíma og var þýdd á fjölda tungumála. En spyrja má hvort  hugmyndin að senda unglingi bréf með heimspekilegum viðfangsefnum sé góð hugmynd? Er það góð hugmynd að stunda heimspeki á þennan hátt. Já og nei, nú er ekki gott að segja þar sem ég hef aldrei verið í sporum Soffíu Amundsen og fengið bréf með heimspekilegum viðfangsefnum til að takast á við. En hinsvegar hef ég verið (og er sem stendur) í sporum heimspekingsins sem sendir ungum heimspekinemum bréf með viðfangsefnum til að takast á við.

Þannig er málum háttað að frá árinu 1997 hef ég kennt á námskeiðum sem Siðmennt heldur fyrir fermingarbörn sín. Heimspekin leikur stórt hlutverk á þessum námskeiðum. Fyrir nokkrum árum höfðu foreldrar unglings samband við mig. Fjölskyldan bjó í Danmörku á þeim tíma og sonur þeirra, þá á fermingaraldri hafði áhuga á að taka þátt í fermingarnámskeiði. Spurðu þau hvaða möguleika hann hefði á þátttöku. Í framhaldi af spjalli mínu við foreldra drengsins varð úr að setja saman fjarnámskeið, einhverskonar „bréfaskóla“ þar sem hann fengi vikulega tölvupóst frá mér með lesefni og verkefnum. Síðan átti hann að senda mér til baka viðbrögð við verkefnunum og lesefninu. Þannig gengu hlutirnir fyrir sig í 12 vikur að við skrifuðumst á heimspekibréfum. Þetta lukkaðist alveg prýðilega og nú er svo komið að síðan þá hafa alltaf nokkrir unglingar sem búsettir eru erlendis farið þessa leið. Í ár eru alls 11 unglingar sem fara þessa leið. Það var síðan móðir eins þátttakandans fyrir nokkrum árum sem sagði að þetta fyrirkomulag mynti sig á samskipti heimspekingsins og Soffíu í Veröld Soffíu.

Verkefnin sem þeir fá eru af ýmsu tagi. Ég fékk t.d. nýverið verkefni sent frá einum þátttakanda sem hefur að gera með það að meta og segja frá því sem maður er þakklátur fyrir. Verkefnið kallast Ég er feginn…. Við skulum skoða brot úr þessu bréfi þátttakandans í „heimspekilega bréfaskólanum“:

Ég er líka feginn að ég bý ekki við hræðilegar kringumstæður, til dæmis í landi án frelsis og mannréttinda. Ég er feginn að fá tækifæri til að vera í góðum skóla þar sem ég á góða vini og félaga. Ég er feginn að geta fengið mat á hverju einasta kvöldi og að ég get slappað af án þess að vera hræddur um að vera tekinn, myrtur eða meiddur af minni eigin fjölskyldu. Ég er feginn að ég get fengið það sem ég vil og gefið þeim sem þurfa á því að halda.

%d bloggurum líkar þetta: