heimspekismiðja

Archive for desember, 2012|Monthly archive page

Um húmanisma

In Uncategorized on desember 27, 2012 at 2:14 e.h.

Út er komin bókin Um húmanisma eftir Richard Norman sem er prófessor emiritus við Kent háskóla í Bretlandi. Reynir Harðarson þýddi, Jóhann Björnsson ritaði formála og útgefandi er Ormstunga í samstarfi við Siðmennt. Á bókarkápu segir að bókin sé „öflug og tímabær varnarræða fyrir húmanisma. Bókin er líka ástríðuþrungin tilmæli um að við snúum okkur að okkur sjálfum en ekki trúarbrögðunum.“

um húmanisma

 

 

Að vera heimspekikennari

In Uncategorized on desember 15, 2012 at 2:06 e.h.

Félag heimspekikennara hefur unnið gott starf í að safna saman og kynna ýmislegt sem tengist heimspekikennslu. Á vefsíðu félagsins http://heimspekitorg.is má finna ýmislegt sem gagnast heimspekikennurum. Hér má sjá viðtal um heimspekikennsluna í Réttarholtsskóla sem tekið var vorið 2012 fyrir Félag heimspekikennara.

Frétt í hverfisblaðinu Laugardalur, Háaleiti og Bústaðir í desember 2012

In Uncategorized on desember 14, 2012 at 2:34 e.h.

Laugardalur….

Stóra jólasveinamálið og heimspekin

In Uncategorized on desember 12, 2012 at 3:25 e.h.

Sú hugmynd kom upp fyrir nokkru í stjórn Siðmenntar að halda spjallfund í anda heimspekikaffihúsa um tilvist jólasveinsins og réttmæti þess að segja börnunum að jólasveinninn eða jólasveinar væru ekki til.  Málið er heimspekilegt og má geta þess að á Vísindavefnum er svar eftir Eyju Margréti Brynjarsdóttur um málið, sjá http://www.visindavefur.is/svar.asp?id=2992 .

Sem lið í að undirbúa mig fyrir samræðurnar ákvað ég að leggja spurninguna fyrir nemendur mína í heimspeki við Réttarholtsskóla og fá álit þeirra.  Óskaði ég eftir því að þau kæmu bæði með rök á móti og með því að börn fengju að vita það að jólasveinar væru ekki til. Síðan fór fram heimspekileg samræða um málið og hin ýmsu sjónarhorn komu upp. Ég skráði niður ýmsar hugmyndir sem upp komu á meðan á samræðunni stóð og hér koma nokkrar þeirra:

Já það á að segja börnum að jólasveinninn sé ekki til :

–          Ef foreldrar vilja spara peninga (þurfa þá ekki að kaupa dót í skóinn). Mótrök en það þarf ekki að kosta mikið, þú getur t.d. gefið mandarínu sem var hvort sem er til.

–          Já ef þú vilt eyðileggja fyrir þeim jólin.

–          Já þegar þau eru orðin nógu gömul. Hvenær eru þau orðin nógu gömul? Þau eru orðin nógu gömul svona 9-12 ára. Á þá að halda fjölskyldufund og tilkynna það með formlegum hætti að jólasveinninn sé ekki til? Nei það á ekki að þurfa að halda sérstakan fund um málið.

–          Það á bara að segja börnunum að jólasveinninn hafi dáið fyrir nokkrum árum. Ástæðan er sú að það var til maður sem var svona upphafið að jólasveinahugmyndinni og núnar er sá maður  dáinn. Mótrök. Það er alveg út í hött og er bara til þess fallið að gera illt verra og það yrði svona einhverskonar sálarmorð barnanna.

Börn eiga rétt á að vita hið sanna.

Nei, það á ekki að segja börnunum að jólasveinninn sé ekki til:

–          Vegna þess að jólasveinninn gerir börnin hamingjusöm

–          Þetta er stór hluti af jólunum og ef jólasveinninn er tekinn út er jólahátíðin ekki sú sama.

–          Ef við segjum þeim að jólasveinninn sé ekki til þá eyðileggjum við barnaæsku þeirra.

–          Börnin þurfa eitthvað til að trúa á.  Getið þið ímyndað ykkur barn sem ekki trúir neinu, hvað verður um slíkt barn? Það verðu fjöldamorðingi. Er það alveg víst að barn sem engu trúir verði fjöldamorðingi? Nei kannski ekki fjöldamorðingi, en allavega þetta er ekki gott mál.

–          Með því að spilla þessari trú á jólasveinana er verið að spilla trú á öðru t.d. guði. Barn sem fær að heyra sannleikann verður að efahyggjumanneskju og þá verður erfitt fyrir slíka manneskju að trúa einhverju.

–          Börnin eiga rétt á því að trúa því sem er skemmtilegt.

–          Jólasveinninn er gleðigjafi.

–          Það er bráðnauðsynlegt fyrir foreldrana að viðhalda jólasveinatrú barnanna vegna þess að ef það er gert eru börnin stillt og fara snemma að sofa og það er til einhvers fyrir foreldrana.

–          Börnin eiga rétt á því að trúa því semþau vilja. Spurning: En má maður trúa því sem maður vill?

–          Jólasveinninn er skemmtilegur og saklaus tilbúningur.  Ertu nú alveg viss um það? Einu sinni fékk barn ipod í skóinn frá jólasveininum á meðan annað fékk mandarínu. Er það sanngjarnt? Er þá ekki jólasveinninn uppspretta ranglætis og öfundsýki?

–          Maður á að ljúga því að jólasveinninn sé til en maður á að gæta hófs í lyginni. Maður á ekki að ljúga of mikið því þá fer maður yfir strikið. Hófleg lygi er réttlætanleg í þessu máli.

–          Börn eiga að trúa á eitthað, það er ekki gott fyrir bön að trúa engu. Spurning: Er hægt að trúa engu?

–          Maður verður að segja eldri börnum frá því að jólasveinnin sé ekki til, því ef þeim er aldrei sagt að jólasveinnin sé ekki til þá gætu þeirra eigin börn í framtíðinni lent í því að fá ekkert í skóinn vegna þess að foreldrar þeirra trúa enn á jólasveininn. Það er ekki gott.

–          Mér finnst að börn yngri en 8-9 ára eigi að trúa á jólasveininn og að fullorðnir eigi að leika með og leyfa börnunum að vera börn. Það er í raun enginn tilgangur með því að segja þeim að jólasveininn sé ekki til því maður er ekki að ljúga heldur er maður bara að leyfa bönunum að vera börn í skamma stund áður en þau fatta sannleikann.

–          Hvað á að gera við barn t.d. í leikskóla sem ekki trúir á jólasveininn og fer að boða þetta jólasveinatrúleysi sitt?  Það yrði bara hörmuleg staða. Er mögulegt að einangra slíkt barn? Nei það væri ekki mannúðlegt.

–          Hvað eiga starfsmenn í leikskólum að gera ef þeir fá spurninguna hvort jólasveinar séu til?

– Hvernig geta foreldrar verið á móti sannleikanaum?

– Er betra að lifa hamingjusamur eða glaður í lygi en óhamingjasamur í sannleika?

– Er það börnunum í raun til góðs að trúa á jólaveininn?

– Er einhver munur á blekkingu, lygi og ósannindum?

Þetta var sýnishorn af því sem fram fór í samræðum í tveimur hópum. Svo var málið rætt í Kastljósi sjónvarpsins, lok þáttarins. Sjá:

http://www.ruv.is/sarpurinn/kastljos/10122012/tilvist-jolasveinsins

 

 

 

Er það siðferðilega rétt að segja börnunum að jólasveinar séu til?

In Uncategorized on desember 5, 2012 at 2:36 e.h.

Í vetur hefur Siðmennt og Sísyfos heimspekismiðja staðið fyrir örnámskeiðum í heimspeki. Núna í desember hafði verið fyrirhugað að halda síðasta örnámskeið ársins, en þess í stað var ákveðið að breyta til og bjóða  til heimspekilegs kaffihúss, þar sem þátttakendur gætu gert aðeins betur við sig . Laugardaginn 8. desember n.k. fer heimspekikaffihúsið fram og verður leitað  svara við því hvort siðferðilega rétt sé að segja börnunum að jólasveinar séu til. Eyja Margrét Brynjarsdóttir heimspekingur við Háskóla íslands og Jóhann Björnsson heimspekikennari við Réttarholtsskóla verða með stutt innlegg og síðan verða umræður þar sem leitað verður svara við þessu álitamáli.

Kaffi og e.t.v. eitthvað með því verður á boðstólnum.

Heimspekikaffihúsið hefst kl. 11 og fer fram í Sjálfsbjargarhúsinu, (Rauða sal) Hátúni 12 í Reykjavík.

Allir eru velkomnir og aðgangur ókeypis.

Á sama tíma mun bók verða kynnt sem Ormstunga gefur út í samstarfi við Siðmennt sem heitir Um húmanisma. Bókin er væntanleg síðar í þessum mánuði og er eftir breska heimspekingin Richard Norman prófessor emeritus í siðfræði við Háskólann í Kent.

 

%d bloggurum líkar þetta: