heimspekismiðja

Archive for október, 2012|Monthly archive page

Er hægt að banna einhverjum að kasta?….og fleiri siðferðileg álitamál.

In Uncategorized on október 27, 2012 at 8:29 e.h.

Á öðru örnámskeiði Sísyfosar í heimspeki var athyglinni beint að siðferðilegum álitamálum. Ýmis mál voru skoðuð frá ýmsum hliðum og rökrædd af þátttakendum. Eitt af þeim málum sem skoðað var á námskeiðinu er frétt sem birtist á vefsíðu DV vorið 2012 og fjallar um dóm sem 17 ára unglingur hlaut fyrir ítrekað snjókast.

Eftir að hafa kynnt sér fréttina sem fylgir hér að neðan þurftu þátttakendur að taka afstöðu til nokkurra staðhæfinga sem fylgja í kjölfar fréttarinnar:

Dómstóll bannar snjókast

 Óvenjulegur dómur kveðinn upp í Englandi
Ritstjórn DV ritstjorn@dv.is
19:47 › 10. MARS 2012
Kean lamb er nú dæmdur maður

Kean lamb er nú dæmdur maður

Dómstóll í Sussex á Englandi hefur kveðið upp ansi óvenjulegan úrskurð í máli sautján ára drengs. Drengurinn, Kean Lamb, hafði gert íbúum Copthorne, þorps í Vestur- Sussex, lífið leitt með sífelldum snjóboltaköstum. Kastaði hann í gangandi vegfarendur, glugga húsa og í bifreiðar.

Dómurinn gerði væntanlega það besta í stöðunni og bannaði drengnum að kasta snjóboltum næstu tvö árin. Bannið nær ekki einungis yfir snjóbolta því Lamb má ekki kasta neinu frá sér og ekki hvetja aðra til þess.

Staðhæfingarnar sem þátttakendur tóku afstöðu til voru þessar:

– „Það er gott á drenginn að að dómarinn banni honum að kasta nokkru í tvö ár.“

– „Það er ómögulegt að framfylgja svona banni og þessvegna er það marklaust.“

– „Það hefði frekar átt að sekta hann (foreldra hans).“

– „Það hefði ekki átt að dæma neitt í þessu máli heldur láta það eiga sig því það er ekki alltaf snjór og þar að auki þroskast drengurinn smátt og smátt.“

– „Það má túlka dóminn þannig að drengurinn má ekki einu sinni kasta af sér vatni.“

– „Það má túlka dóminn þannig að ef drengurinn æfir handbolta þá má hann ekki kasta boltanum.“

Umræður voru fjörlegar eins og gefur að skilja og skoðanir skiptar. Þátttakendur beittu rökræðunni af yfirvegun og sameinuðust í því að leita að því sem satt er og rétt í málinu.

Næsta örnámskeiðið í heimspeki verður haldið í lok nóvember og verður það kynnt nánar síðar. Skráningar fara fram með því að senda tölvupóst á netfangið johannbjo@gmail.com eða í síma 8449211. Þátttökugjaldi er stillt í hóf og er aðeins kr. 500 fyrir hvert námskeið sem stendur yfir í 2 klst.

Er hægt að vita hvað er rétt? Örnámskeið í heimspekilegri siðfræði

In Uncategorized on október 12, 2012 at 1:38 e.h.

Laugardaginn 27. október n.k. verður annað örnámskeiðið á vegum Siðmenntar og Sísyfosar heimspekismiðju haldið. Að þessu sinni verður athyglinni beint að siðfræðinni sem er ein af greinum heimspekinnar. Þátttakendur fá að takast á við ýmis siðferðileg álitamál og kynnast lítillega nokkrum algengustu siðfræðikenningunum.

Námskeiðið stendur frá kl. 11.30-13.30. Ekki er nauðsynlegt að hafa sótt fyrsta námskeiðið til þess að taka þátt í þessu námskeiði.  Leiðbeinandi er Jóhann Björnsson MA í heimspeki.

Nuðsynlegt er að skrá þátttöku sína, annaðhvort með því að senda póst á johannbjo@gmail.com eða í síma 8449211, þar sem þátttakendafjöldi er takmarkaður.

Þátttökugjald er kr. 500.

%d bloggurum líkar þetta: