heimspekismiðja

Archive for september, 2012|Monthly archive page

Hugsað, pælt og rökrætt á örnámskeiði í heimspeki

In Uncategorized on september 29, 2012 at 2:56 e.h.

Sautján einstaklingar á ýmsum aldri , bæði unglingar og fullorðnir sameinuðust á örnámskeiði í heimspeki laugardaginn 29. september og rökræddu ýmis heimspekileg vafamál. Markmiðið með þessu námskeiði var að gefa almenningi kost á að kynnast gagnrýninni hugsun í verki og þeim möguleikum sem heimspekileg samræða býður upp á við að skilja hin ýmsu viðfangsefni.

Að stunda heimspeki er að mörgu leiti eins og að stunda íþróttir, maður þarf að æfa sig til þess að ná færni þannig að hún nái að gagnast manni. Þeir færniþættir sem einkum var unnið með á námskeiðinu voru þessir: 1) Að taka afstöðu og mynda sér skoðun. 2) Að rökræða. 3) Að spyrja.

Næsta örnámskeið verður haldið laugardaginn 27. október kl. 11.30-13.30. Á því námskeiði verður tekið fyrir efni sem tengist siðfræðinni, en siðfræðin er ein af greinum heimspekinnar.

Stefnt er að því að halda örnámskeið einu sinni í mánuði í vetur og er um að ræða opinn vettvang fólks sem áhuga hefur á að hugsa heimspekilega og rökræða saman. Þátttökugjaldi er mjög stillt í hóf eða kr. 500.- Nauðsynlegt er að skrá þátttöku sína þar sem þátttakendafjöldi miðast við tuttugu manns. Skráningar má senda á Jóhann í tölvupósti á netfangið johannbjo@gmail.com eða í síma 8449211.

Ný bók um heimspeki og fjölmenningu

In Uncategorized on september 13, 2012 at 6:18 e.h.

Út var að koma bókin Eru allir öðruvísi? Fjölmenning og heimspeki. Höfundur er Jóhann Björnsson en um myndskreytingu sá Björn Jóhannsson 19 ára gamall nemi í bifreiðasmíði.

Bókin fjallar um ýmsa þætti fjölmenningarsamfélagsins með heimspekilegum hætti. Í henni má finna efni sem hentar fólki á öllum aldri, börnum, unglingum og fullorðnum. Hún samanstendur af sex köflum sem hver um sig hefur ákveðið þema og eru kaflaheitin þessi: 1. Hverjir eiga heiminn? 2. Hvað er besta tungumál í heimi? 3. Af hverju eru ekki allir eins á litinn? 4. Hvað er í matinn? 4. Hvað með guð? 5. Eru allir útlendingar?

Bókina má nota á ýmsan hátt. Hún getur gagnast í kennslu með nemendum á ýmsum aldri og fullorðnum. Hana má einnig nota sér til ánægju í heimahúsum eða í sumarbústaðnum í góðra vina hópi þar sem áhugi er á að ræða og pæla saman. Heimspeki er jú nefnilega líka tómstundagaman.

Bókin er alls 60 blaðsíður. Í bókinni má finna ítarlegar tillögur og leiðbeiningar um notkunarmöguleika.

Verð er kr. 2500.- (auk sendingarkostnaðar ef póstsent er).

Bókin er ekki enn komin í bókaverslanir en hana er hægt að panta hjá Jóhanni Björnssyni í síma 8449211 eða með því að senda póst á netfangið johannbjo@gmail.com.

Að hugsa gagnrýnið. Örnámskeið í heimspeki.

In Uncategorized on september 12, 2012 at 5:48 e.h.

Siðmennt, félag siðrænna húmanista (www.sidmennt.is) mun í vetur halda örnámskeið í heimspeki í samstarfi við Sísyfos heimspekismiðju. Fyrsta námskeið vetrarins verður laugardaginn 29. september kl. 11.30-13.30. Á þessu námskeiði mun athyglinni verða beint að gagnrýninni hugsun og munu þátttakendur fá að takast á við ýmis viðfangsefni með gagnrýnu hugarfari. Námskeiðið er öllum opið og er þátttökugjald kr. 500-.

Leiðbeinandi er Jóhann Björnsson MA í heimspeki.

Nauðsynlegt er að skrá þátttöku sína fyrirfram þar sem þátttakendafjöldi er takmarkaður.

Skráningar má senda á netfangið johannbjo@gmail.com eða í síma 8449211 þar sem einnig eru veittar frekari upplýsingar.

 

Prófin og hamingjan

In Uncategorized on september 7, 2012 at 2:33 e.h.

Út er komin bók eftir Ian Morris hjá Námsgagnastofnun sem heitir Að sitja fíl. Nám í skóla um hamingju og velferð. Eins og titillinn ber með sér er bókinni ætlað að vera innlegg í kennslu um hamingju og velferð. Margt ágætt er að finna í bókinni og það sem vakti ekki síst athygli mína er afstaða höfundar til prófa, þegar um er að ræða nám í ljósi hamingjunnar. Gefum höfundinum orðið:

„Nútímamenntun er stjórnað af prófum og með réttu eru nemendur þreyttir á því. Tímar í velferð ættu að hlífa nemendum við þeirri pressu sem fylgir prófaundirbúningi því í þeim tímum geta nemendur lært aðferðir til að takast á við það prófafarg sem dembt er yfir þá í öðrum greinum skólans.“

Og síðar segir:

„Við skulum muna að spyrja okkur sjálf hversvegna við erum yfirleitt að leggja fyrir próf. Ef það er gert til að hjálpa nemendum að lifa betra lífi þá er það þess virði. Ef það er gert til að réttlæta stöðu okkar í skólanum þá fylgja því siðferðileg vandamál að eyða tíma nemenda til að eltast við það sem er í raun eigingjarnt af okkar hendi.“

Og svo….

„Velferð á að vera undanskilin þeirri þráhyggju sem gegnsýrir skólakerfið að magnbinda, mæla og meta alla skapaða hluti.“

Mér fannst einstaklega ánægjulegt að sjá þetta sjónarmið koma fram í bók sem hefur fengið góða dóma. Árið 2008 kom ég fram með svipað sjónarhorn og voru það afskaplega fáir sem deildu skoðunum mínum. (að minnsta kosti opinberlega). Við skulum rifja málið upp, en það kom fram í blaðinu 24 stundir 26. apríl 2008:

http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1209973/

JB

%d bloggurum líkar þetta: