heimspekismiðja

Archive for ágúst, 2012|Monthly archive page

Heimspeki vikunnar

In Uncategorized on ágúst 31, 2012 at 1:27 e.h.

Heimspeki vikunnar er spurning frá nemanda í 8. bekk:

„Ef ég er að lesa hugsanir þínar og þú að lesa hugsanir mínar, er ég þá að lesa hugsanir mínar?“

Svari nú hver sem betur getur.

jb

Fimm heimspekinemar fengu viðurkenningu

In Uncategorized on ágúst 27, 2012 at 6:14 e.h.

Ég veit ekki hvort skólafólk velti því neitt sérstaklega fyrir sér hvers vegna sumir nemendur fá viðurkenningu við skólaslit eða útskriftir. Yfirleitt er það vegna þess sem er kallað „framúrskarandi“ árangur í námi eða eitthvað þessháttar. En spyrja má hvort það geti verið að stundum eigi einhverjir aðrir skilið að fá viðurkenningu hvort sem námsárangurinn er framúrskarandi eða ekki? Þessari spurningu svaraði ég játandi við skólaslitin í Réttarholtsskóla s.l. vor þegar ákveðið var að veita alls fimm nemendum í 10. bekk viðurkenningu fyrir nám sitt í heimspeki. Allir stóðu nemendurnir sig með prýði en ástæða viðurkenningarinnar var ekki námsárangurinn sem slíkur heldur það að þetta voru fyrstu nemendurnir sem útskrifast úr skólanum og lagt hafa stund á heimspeki öll árin sín við skólann. Í 8. bekk sóttu þeir heimspekitíma sem skyldufag, þeir völdu heimspeki í 9. bekk og svo aftur í 10. bekk.

Sem viðurkenningu fengu þeir bókina Tilvistarstefnan er mannhyggja eftir franska heimspekinginn Jean-Paul Sartre (sjá http://visindavefur.hi.is/svar.php?id=58379) í þýðingu Páls Skúlasonar sem Hið íslenzka bókmenntafélag gaf út. Ástæðan fyrir því að bók þessi varð fyrir valinu er að um tíma unnum við með hugmyndir Sartres í kennslustundum og greindum kvikmyndina The Box út frá tilvistarstefnunni.

Að lokinni útskrift kom fram það sjónarmið að það væri vel þess virði að veita líka viðurkenningu fyrir áhuga, en ekki eingöngu fyrir árangur.

Hversvegna ætti einhver að vilja leggja stund á heimspeki?

In Uncategorized on ágúst 24, 2012 at 1:58 e.h.

Nú er vetrarstarfið komið af stað í skólum landsins. Við Réttarholtsskóla munu rúmlega 150 nemendur sækja tíma í heimspeki í vetur, sem skyldufag í 8. bekk og sem valfag í 9. og 10. bekk. það er forvitnilegt að vita hversvegna nemendur sem velja fagið velja það yfirhöfuð. Í fyrsta tímanum spurði ég nemendur tveggja hópa í 9. bekk hversvegna þeir hafi kosið að leggja stund á heimspeki og voru svör flestra á þá leið að fagið væri skemmtilegt eða áhugavert, sumum fannst þetta vera auðvelt fag, einn svaraði því til að hann vildi verða betri í heimspeki og svo var eitt svarið svohljóðandi:

„Til að læra að svara erfiðu spurningunum. T.d. hvað er hamingja? Og læra að horfa á hlutina frá mismunandi sjónarhornum.“

JB

Nemendur þriggja landa bera saman hamingjuhugtakið

In Uncategorized on ágúst 13, 2012 at 5:39 e.h.

Á komandi skólaári munu heimspekinemar við Réttarholtsskóla taka þátt í etwinning verkefni ásamt skólum í Frakklandi og Finnlandi. Alls taka fjórir skólar þátt í verkefninu, auk Réttarholtsskóla er einn skóli í Finnlandi (nánar tiltekið í Lapplandi) og tveir í Frakklandi. Viðfangsefnið er hamingjan. Við munum skoða ýmsar hliðar hamingjunnar og kanna hvort hamingjan verði skilin á óíkan hátt í þessum löndum.

Samhliða þessu verkefni munu nemendur við Réttarholtsskóla fá að kynnast hugmyndum Bertrands Russels á hamingjunni en hann skrifaði bók um efnið sem kom út fyrir nokkrum árum í íslenskri þýðingu undir heitinu Að höndla hamingju.

 

%d bloggurum líkar þetta: